laugardagur, 20. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góðir gestir frá Noregi

28. september 2009 kl. 12:46

Góðir gestir frá Noregi

Eiðfaxi fékk góða gesti í heimsókn í á föstudaginn, alla leið frá Noregi. Það er þjálfarinn og keppnismanneskjan Christina Lund sem er stödd á landinu ásamt vinum sínum. Þau voru að koma úr Langholti frá Erlingi Erlingssyni og Viðju Hrund Hreggviðsdóttur, þar sem þau kíktu vitanlega á stóðhestinn Álf frá Selfossi sem er í eigu Christinu.

Annar tilgangur ferðarinnar var að fara í réttir en það hafa þau aldrei gert áður. Þau keyrðu norður seinni partinn á föstudaginn og voru spennt að sjá og upplifa stemninguna þar og taka þátt í söng og gleði heimamanna.


Christina Lund:
Varstu ánægð með Álf?
„Já mjög, Álfur er í mjög fínu standi eins og alltaf. Hann er ennþá með nokkrar hryssur hjá sér“, segir Christina.

Maður er hálf smeykur um að þú sért nú komin til að sækja Álf og fara með hann til Noregs. Stendur það til?

„Já, það stendur til. En ekki strax, kannski eftir eitt ár eða svo. Það er spennandi ár framundan í hestamennskunni hér á Íslandi, landsmót og fleira, svo sjáum við bara til næsta haust.“

Bíða Norðmenn spenntir eftir komu hans?

„Já, það er óhætt að segja það. Það er mikið hringt og spurt um hann, hvenær hann komi. Það eru Norðmenn, Svíar, Danir og Þjóðverjar. Ég held að hann muni fá góða notkun í Noregi og víðar í Evrópu“, segir Christina að lokum.


Morten Løver er keppnismaður í Noregi. Hann keppir á Kraftssyninum Biskupi frá Æsustöðum í fjórgangi og tölti. Hann á fimm hesta, þar af einn American Saddlebred, rauðskjóttan. Á Íslandi á hann eina hryssu undan Baldri frá Bakka og eignaðist hún hestfolald undan Álfi frá Selfossi í sumar og er nú fylfull við Klett frá Hvammi.
„Ég skoðaði tvö hross í Víðidalnum og kannski kaupi ég annað þeirra, aldrei að vita“, segir Morten hress í bragði.


Tina Johansen
Hún er eigandi stóðhestsins Hrímbaks frá Hólshúsum. Fyrsta keppnistímabilið þeirra var nú í ár en hún keypti hann síðasta haust. Hún keppir í fjórgangi og tölti og hefur gengið mjög vel. Hún á þrjá aðra hesta, keppnishest og ræktunarhryssu í Noregi.

Tina og Morten eru hluti af vinahópi í Noregi sem er mikið saman í hestamennskunni. Þau fá Erling í Langholti til að koma út 3-4 sinnum á ári og kenna og eru mjög ánægð með hans leiðsögn.

Það var gaman að fá þetta hressa fólk í heimsókn og Eiðfaxi óskar þeim góðs gengis í sinni hestamennsku.