sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gári kominn á toppinn í BLUPPI

Jens Einarsson
26. október 2010 kl. 10:45

Nýtt kynbótamat komið á WorldFeng

Nýtt kynbótamat BLUPP fyrir íslensk hross er komið á WorldFeng. Orrasynir skipa þrjú efstu sæti í á topplistanum yfir stóðhesta með fleiri en fimmtán dæmd afkvæmi, stóra listanum. Kóngurinn sjálfur, Orri frá Þúfu, er í fjórða sætinu.

Gári frá Auðsholtshjáleigu er efstur allra reyndra stóðhesta þessum lista með 129 stig og 41 dæmt afkvæmi. Hann er með algjöra sérstöðu hvað sköpulag varðar, með 140 stig. Jafn í aðaleinkunn og  í öðru sæti er Garri frá Reykjavík með 30 dæmd afkvæmi. Í þriðja sæti er Sær frá Bakkakoti með 125 stig og 91 dæmt afkvæmi.

Illingur frá Tóftum er sá hestur sem kemur á á stóra listanum. Hann hefur skotist upp í fjórða sætið með 123 stig og 21 dæmt afkvæmi. Illingur var seldur úr landi á síðastliðinn vetur. Hann kemur sterkur út, bæði fyrir sköpulag og hæfileika. Það lítur því út fyrir að hann hafi verið vannýttur stóðhestur hér á landi. Illingur er af Þóroddsstaða- og Laugarvatnsætt — eins og Gári er í móðurætt.

Yngstur stóðhesta til að ná inn á topp tíu lista, ef teknir eru stóðhestar með fimmtán til fimmtíu afkvæmi, er Álfasteinn frá Selfossi, fæddur 2001. Hann er í fimmta sæti á eftir Gára, Garra, Illingi, og Starra frá Hvítanesi. Með 123 afkvæmi og 18 dæmd afkvæmi. Hann fær ekki nema 82 stig fyrir prúðleika, en 127 fyrir vilja. Álfasteinn er í ellefta sæti á lista yfir stóðhesta með fleiri en 15 dæmd afkvæmi, það er að segja á stóra listanum.

Gígjar frá Auðsholtshjáleigu, fæddur 2000, er þrettándi á lista með fimmtíu afkvæma þakinu með 120 stig og 23 dæmd afkvæmi. Þóroddur frá Þóroddsstöðum er ellefti á sama lista með 120 stig í aðaleinkunn og 27 dæmd afkvæmi. Hvorugur kemst þó á lista tuttugu efstu yfir hesta á stóra listanum.

Af stóðhestum með færri en fimmtán afkvæmi, minna reyndum stóðhestum, er Ísar frá Keldudal efstur með 129 stig og 13 dæmd afkvæmi. Hann er í Svíþjóð. Næstur er Vilmundur frá Feti með 128 stig og 7 dæmd afkvæmi og í þriðja sæti Oliver frá Kvistum með 128 stig og ekkert dæmt afkvæmi. Blær frá Torfunesi er fjórði með 127 stig og 7 dæmd afkvæmi.