mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fróðleg grein um sumarexem

9. janúar 2013 kl. 14:39

Fróðleg grein um sumarexem

Sumarexem er alvarlegt vandamál í útfluttum hrossum sem dregur mjög úr samkeppnishæfni íslenskrar hrossaræktar á alþjóðlegum markaði. Metnaðarfullar rannsóknir á sumarexemi hefur verið í gangi bæði hér heima og nú í Bandaríkjunum.

Með því að fylgjast með hryssuhópi og þremur árgöngum folalda undan þeim vilja rannsakendur nú komast að því hvers vegna tíðni sumarexems sé hærri í hestum fæddum á Íslandi en í íslenskum hestum fæddum erlendis. Þeir hafa þá tilgátu að sérvirkt mótefni leynist í broddmjólk hryssna sem bitnar hafa verið af smámýi.

Í Bændablaðinu 13. desember sl. rita  dr. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur, og dr. Vilhjálmur Svansson,dýralæknir/veirufræðingur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum grein um rannsóknina. En hana má nálgast hér og hér að neðan.

Einnig bendum við á grein Sigurbjargar og Vilhjálms í 7. tbl. Eiðfaxa 2012 þar sem farið er yfir stöðu rannsókna á sumarexemi hérlendis.

 

Grein Sigurbjargar og Vilhjálms í Bændablaðinu:

Fá folöld vörn gegn sumarexemi með broddmjólkinni?

Aðfaranótt laugardagsins 4. febrúar 2012 fóru 15 fylfullar hryssur og stóðhesturinn Geisli frá Litlu-Sandvík um borð í flugvél til New York. Þaðan voru þau flutt til Cornell-háskóla í Íþöku, þar sem hryssurnar köstuðu síðastliðið vor. Hrossin eru þátttakendur í viðamiklu rannsóknarverkefni sem stýrt er af dr. Bettinu Wagner við Dýrasjúkdómadeild Cornellháskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, þau Vilhjálm Svansson og Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur og Sigríði Björnsdóttur sérgreinadýralækni hrossa hjá Matvælastofnun.

Með tilrauninni á að reyna að svara eftirfarandi rannsóknarspurningu: Hvers vegna er tíðni sumarexems mun hærri (35%) í hestum fæddum á Íslandi en í íslenskum hestum fæddum erlendis (5-10%)? Rannsóknartilgátan er að sérvirk mótefni í broddmjólk hryssna sem bitnar hafa verið af smámýi veiti afkvæmum sínum vörn gegn sumarexemi seinna á ævinni.

Haustið 2009 voru keyptar 15 hryssur sem ætlað var að eiga þrjá árganga af folöldum með sama stóðhestinum. Þessir þrír folaldahópar hálfsystkina verða haldnir með ólíkum hætti þannig að þeir komist í kynni við smámý á mismunandi aldri og með eða án þess að fá mótefni gegn smámýinu með broddmjólkinni.

1. Fyrsti árgangurinn fæddist á Keldum vorið 2011. Þessi folöld gengu undir mæðrum sínum í 9 mánuði en þá voru hryssurnar fluttar fylfullar út til Bandaríkjanna. Trippin eru enn á Íslandi og hafa þar af leiðandi ekki enn verið bitin af smámýi. Fyrirhugað er að flytja þennan trippahóp út til Bandaríkjanna vorið 2013, þegar þau verða tveggja vetra og komin með nánast fullþroskað ónæmiskerfi.

2. Annar árgangurinn fæddist í Bandaríkjunum síðastliðið vor (2012) án þess að mæðurnar hefðu verið bitnar á meðgöngu. Þar af leiðandi höfðu þær ekki haft tækifæri til að mynda sérvirk mótefni gegn smámýi í broddmjólk. Folöldin fæddust því í umhverfi þar sem smámý er til staðar en án þess að mæður þeirra hefðu möguleika á að veita þeim vörn með broddmjólkinni.

3. Þriðji árgangurinn kom undir í sumar og fæðist vorið 2013 í Bandaríkjunum. Mæðurnar hafa þá verið í sambýli við smámýið í eitt ár og ættu að vera búnar að mynda sérvirk mótefni gegn því í blóði og broddmjólk. Folöldin sem einnig komast í kast við smámý frá fæðingu ættu að fá sérvirk mótefni með broddmjólkinni.

Til að hafa yfirlit yfir ónæmisbúskapinn eru hryssurnar vaktaðar dag og nótt fyrir köstun þannig að blóð náist úr folöldunum áður en þau komast á spena. Sýni eru einnig tekin úr broddmjólk. Eftir það eru tekin sýni reglulega bæði úr folöldum og hryssum á degi 2, 5, 12, 28 frá köstun og síðan mánaðarlega til sex mánaða aldurs. Þá þarf að taka sýni á tveggja til þriggja mánaða fresti í a.m.k þrjú ár. Prófanir og mælingar eru gerðar við Cornell-háskóla.

Frá vorinu 2013 verða allir hóparnir haldnir við sambærilegar umhverfisaðstæður í Cornell. Þá reynir á hvort tíðni sumarexems verður breytileg milli hópanna og hvort mótefni í broddmjólk og/eða kynni folalda af smámýi í frumbernsku hafi þar áhrif. Það getur tekið allt að tvö ár frá því að hross eru bitin af smámýi þar til ofnæmi tekur að þróast og því er ekki von á endanlegum niðurstöðum úr tilrauninni fyrr en í fyrsta lagi árið 2015.

Lýsing á sumarexemi

Sumarexem einkennist af kláða og húðbreytingum sem geta þróast út í þrálát sár og sýkingar. Einkennin eru gjarnan mest áberandi  í fax- og taglrótum og valda hrossum miklum óþægindum. Exemið er ekki vandamál á Íslandi en það er orsakað af  örsmáum bitflugum, svokölluðu smámýi (Culicoides spp, biting midges), sem lifir ekki hér á landi.

Þegar smámýið bítur og sýgur blóð spýtir það um leið súpu af próteinum inn í húð hestsins. Í sumum hestum vekja þessi prótein ofnæmi, eru ofnæmisvakar. Sumarexem er því ofnæmi með exem og kláða sem sjúkdómsmynd.Smámýið er landlægt í nánast öllum löndum heims að Íslandi undanskildu. Hestar af íslensku kyni sem fæddir eru erlendis alast því upp með flugunni en ekki hestar fæddir hér heima. Þetta er talin aðalástæða þess að hross sem fædd eru á Íslandi og flutt út fullþroskuð fá exemið í mun ríkari mæli.

Áhætta á ofnæmi, áhrif frá móður

Folöld fá ónæmisvarnir frá móður með broddmjólkinni fyrstu mánuði ævinnar, eða þar til ónæmiskerfi þeirra er þroskað. Umhverfisáhrif í móðurkviði og frumbernsku eru talin skipta sköpum fyrir hættuna á ofnæmi síðar á ævinni. Sumarexem í íslenskum hestum veitir einstakt tækifæri til að bera saman dýr af sama erfðauppruna sem eru útsett fyrir ofnæmisvökum á mismunandi þroskaskeiðum.

Þakkir

Fyrir utan starfsfólk á Keldum og Matvælastofnun þá lögðu margir verkefninu ómetanlegt lið. Við viljum sérstaklega þakka eftirfarandi aðilum:

Icelandair  sem styrkti verkefnið með því að veita verulegan afslátt á flutningi hrossanna til Bandaríkjanna.

Gunnar Arnarsson og Kristbjörg Eyvindsdóttir styrktu verkefnið rausnarlega. Þau gáfu alla sína vinnu, útflutningspappíra, aðstöðu fyrir hrossin í Reykjavík fyrir útflutning og flutning á þeim til Keflavíkur.

Ingólfur Helgason og Höskuldur Jensson, Sæðingastöðinni á Dýrfinnustöðum í Akrahreppi, sáu um frjósemisprófanir á graðhestum sem til greina komu fyrir rannsóknina, auk þess sem Ingólfur lagði verkefninu lið á margvíslegan hátt.

Bændasamtök Íslands gáfu vegabréf hrossanna.

Ólafur Sigurgeirsson á Kálfsstöðum veitti kærkomna aðstoð við blóðtökur og hrossasmalanir.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson lánaði hestakerru.