
Það gæti orðið bæði erfitt og kostnaðarsamt fyrir hestamenn á höfuðborgarsvæðinu að losna við hrossatað á næstu árum. Landeigendur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hafa tekið við hrossataði og notað til uppgræðslu, en samkvæmt skrifstofu Fáks lítur út fyrir að heilbrigðisyfirvöld ætli að herða reglur þar um vegna hættu á mengun drykkjarvatns. Greiða þarf móttökugjald fyrir hrossatað hjá Sorpu í Álfsnesi.
Há móttökugjöld í Sorpu
Kristján Ketilsson, verktaki og fyrrverandi formaður hestamannafélagsins Háfeta í Þorlákshöfn, segir að það sé varla standandi í því að flytja hrossatað úr hestahúsahverfum. Móttökugjald fyrir hrossatað í Álfsnesi sé hátt, 1,53 krónur á kíló af hreinu taði, eða 1530 krónur á tonnið. Leiðin í Álfsnes sé löng og seinfarin á stórum bílum. Aka þurfi um mörg hringtorg í þéttbýli. Kostnaðurinn sé því verulegur. Verktakar hafi reynt að minnka kostnaðinn með því að komast í samband við landeigendur í nágrenni borgarinnar, sem vilja nota taðið til uppgræðslu. Það sé hins vegar oft illa séð af heilbrigðiseftirliti, sem telji hættu á að hrossaskíturinn mengi vatnsból. Því má bæta við að móttökugjaldið hækkar í hvorki meira né minna en10 krónur á kíló ef aðskotahlutir eru í taðinu. Það er að segja ef það er blandað rusli. Hrossatað með aðskotahlutum er urðað í jörðu, en hreint tað er að hluta notað í efsta lag þegar urðunarsvæðum er lokað. Engin önnur nýting er á taði sem losað er í Sorpu.
Frábær áburður til uppgræðslu
„Það er náttúrulega alveg með ólíkindum að það skuli vera meiri háttar vandamál að losna við jafn góðan áburð og hrossaskít í þessu örfoka landi. Það mætti ná stórkostlegum árangri í uppgræðslu á landi hér í kring ef skipulega væri í það farið. Árangur Gunnars Dungal í Dallandi sýnir það. Hann hefur grætt upp um 400 hektara lands með hrossaskít frá hestamönnum. Hrossatað er mjög gott til uppgræðslu á melum og mólendi. Það bindur jarðveginn og er mjög áburðarríkt,“ segir Kristján.
„En hestamenn eru líka oft á tíðum sjálfum sér verstir í þessu máli eins og öðrum. Það skiptir auðvitað öllu máli að hrossaskíturinn sé hreinn. Að ekki sé í honum allskyns rusl. Sumir nota taðþróna sem ruslakistu, og það gengur ekki upp. Það tekur enginn við skítnum þannig. Það er mjög áríðandi að hestamannafélögin taki upp viðræður við sveitarfélögin á hverjum stað og reyni að finna lausn á þessum vanda. Eins og þetta lítur út núna þá er losunin einfaldlega að verða of dýr fyrir hinn venjulega hestamanna.“