miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Formaður Meistaradeildarinnar í spjalli

14. desember 2009 kl. 12:00

Formaður Meistaradeildarinnar í spjalli

Aðalfundur Meistaradeildar VÍS var haldinn 9.desember s.l. í höfuðstöðvum VÍS. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf, auk þess sem liðin voru kynnt og gerð drög að dagskrá vetrarins. Eiðfaxi sló á þráðinn til Rúnars Þórs Guðbrandssonar, nýkjörins  formanns deildarinnar.

Rúnar, hver voru aðalmál fundarins?

„Fyrir utan almenn aðalfundarstörf, voru lið næsta tímabils kynnt. Þau eru: Auðsholtshjáleiga, Árbakki/Hestvit, Frumherji, Grænhóll, Lífland, Lýsi, Málning og Top Reiter. Grænhóll er með nýtt lið, „kvennalandslið“ eins og gárungarnir kalla það. Nú, síðan var unnið í dagskránni fyrir mótin, hún er nú ekki orðin alveg mótuð en það eru komin drög að henni. Einhverjir lögðu til að byrjað yrði fyrr á mótum vetrarins og þá hætt fyrr að vorinu.“

Komu upp einhverjar gagnrýnisraddir á greinarnar sem keppt er í?

„Já, það var álit einhverra að hraðafimin væri ekki endilega grein sem ekki passaði inn í Meistaradeildina. En þetta er grein sem hefur þróast í deildinni og er orðin ein vinsælasta keppnisgreinin innanhúss í dag, þá er þetta líka ein af þeim greinum sem mat dómara kemur lítið við sögu. Flestir eru þó sammála því að fyrirkomulagið  á greinum deildarinnar sé gott eins og það er.

Nú hefur gæðingafimin sætt nokkurri gagnrýni hvað form greinarinnar, dómara og einkunnagjöf varðar. Hvernig standa þau mál núna?
 „Gæðingafimin er frábær grein sem er í stöðugri þróun hjá okkur. Hún sýnir vinnu knapanna heima fyrir, hvernig þeir þjálfa og undirbúa hesta sína og þeir fá tækifæri til að sýni snilli sína og hestsins. Gæðingafimikvöldið síðast liðinn vetur var mjög langt, aðallega sökum einkunnaupplesturs en við vonumst til að geta bætt úr því næst. Í fyrra var útbúinn leiðari fyrir gæðingafimina og var unnið eftir honum síðast. Þessi leiðari hefur verið sendur til kennara við Háskólann á Hólum og þeim boðið að gera athugasemdir við hann og/eða koma með tillögur að breytingum. Í fyrra var annars vegar gefnar einkunnir fyrir æfingar og fjölhæfni, og þann hluta dæmdu reyndir reiðkennarar. Hins vegar var gefið fyrir flæði og gangtegundir og gæðingadómarar dæmdu þann hluta. Almennt séð var ánægja með dómana í fyrra og leiðarinn reyndist vel.“

Aðeins að því sem snýr beint að hestinum. Gólfið hefur verið talið frekar hart og jafnvel hált. Stendur til að gera bragarbót á því?
„Já nýir rekstraraðilar Ölfushallarinnar, þau Guðmundur Björgvinsson og Eva Dyröy, eru nú þegar farin að huga að því. Þau eru bæði reynt keppnisfólk og þekkja höllina vel. Þau hafa verið að fá ráðleggingar hvað þetta varðar og við treystum því að þetta verði í góðu lagi í vetur.  Þar að auki munu þau taka aðstöðuna að einhverju leyti í gegn og ætla að setja svolítið púður í að gera aðstöðuna enn huggulegri.“

Fleiri nýjungar eða endurbætur?
„Ja, RÚV mun halda áfram að gera þætti um Meistaradeildina og Hestafréttir munu sýna beint á netinu frá öllum mótunum . Við fundum fyrir miklum áhuga á þeim útsendingum á síðasta tímabili og oft voru um 4 þúsund tölvur að tengjast og fylgjast með. Núna ætlum við að bæta nettenginguna í höllinni til að fá betri gæði á sendingarnar og tökum því lágmarksþóknun fyrir það að fólk tengist og horfi.“

Kom aldrei til greina að færa deildina í aðra höll, á höfuðborgarsvæðið?

„Við vorum alveg opin fyrir því og ýmsir aðilar höfðu samband og buðu fram aðstöðu, t.d. Harðarmenn. Þetta var prófað í Víðidalnum á sínum tíma en reynslan hefur kennt okkur að Ölfushöllin hentar vel. Það er við hana hesthús og einhvern veginn myndast góð stemning hjá knöpunum þar og allir eru á staðnum til að hvetja sitt lið áfram. En svo verður deildin auðvitað færð þegar komið verður yfirbyggður reiðvöllur...“

Lokaorð?
„Markmið deildarinnar er að í henni séu sterkustu knapar og hestar landsins samankomnir. Hagsmunaaðilarnir eru margir, styrktaraðilar okkar, áhorfendur, knaparnir og fjölmiðlar. Allir vilja frá sem skemmtilegasta og mest spennandi keppni. Við hvetjum áhorfendur til þess að fylgjast vel með deildinni í vetur, mæta á mótin, fylgjast með vefmiðlum og síðu deildarinnar, www.meistaradeildvis.is.“

Eiðfaxi þakkar Rúnari Þór fyrir spjallið.