mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fámennur en góðmennur kynningarfundur

27. janúar 2010 kl. 16:06

Fámennur en góðmennur kynningarfundur

Stjórn Meistaradeildar VÍS hélt kynningarfund um deildina á Miklatúni við Kjarvalsstaði í dag. VÍS verður aðalstyrktaraðili deildarinnar, fimmta árið í röð. Guðmundur Örn Gunnarsson ávarpaði fundargesti og talaði um að deildin hlyti meiri og meiri athygli á hverju ári og öllum stæði í fersku minni ævintýrið á Tjörninni í fyrra, þegar hestar og menn fóru gegnum ísinn á kynningunni.

Guðmundur Örn og Rúnar Þór Guðbrandsson formaður stjórnar MD VÍS, undirrituðu samstarfssamning og liðsstjórar liðanna sömuleiðis.

Það var svo Haraldur Þórarinsson formaður Landssambands hestamannafélaga sem setti Meistaradeildina formlega og að lokum fóru þeir tveir knapar sem mættu með hesta, þau Hulda Gústafsdóttir og Viðar Ingólfsson nokkrar salibunur á malarstíg austan við Kjarvalsstaði.

Það kom fram í máli Rúnars Þórs að upphaflega hafi deidin verið stofnuð til að auka hróður hestaíþrótta í fjölmiðlum. Það virðist hafa tekist, því RÚV gerir þætti um hvert mót, nú undir stjórn Samúels Arnar Erlingssonar og auk þess sendir miðillinn www.hestafréttir.is beint út frá mótunum.

Eiðfaxi mun sem fyrr verða duglegur að fjalla um mót deildarinnar og hvetur fólk til að mæta í Ölfushöllina og skemmta sér við að sjá góð hross og frábæra knapa.