mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Erum í viðbragðsstöðu ef aðstæður breytast" -

23. mars 2010 kl. 13:37

„Erum í viðbragðsstöðu ef aðstæður breytast" -

Vignir Siggeirsson tamningamaður býr ásamt fjölskyldu sinni að Hemlu II í Vestur-Landeyjum. Bærinn er í mikilli nálægð við Eyjafjallajökul, þar sem eldgos er nú í fullum gangi. Eiðfaxi.is sló á þráðinn til Vignis til að heyra hljóðið í mönnum á þessum slóðum.

Hvenær og hvernig urðuð þið vör við gosið?
„Það var nú ekki fyrr en við engum hringingu frá Almannavörnum aðfararnótt sunnudagsins, þar sem okkur var tilkynnt þetta og um leið að við þyrftum að rýma híbýlin og fara á Hvolsvöll. Við höfðum ekki orðið vör við neinar hræringar hér heima, þó við búum í mikilli nálægð við jökulinn.“

Hvernig var það að þurfa að bregðast skjótt við og yfirgefa heimili sitt með alla fjölskylduna um miðja nótt?
„Það var jú svolítið sérstakt. En við héldum alveg ró okkar og þetta gekk allt saman mjög vel fyrir sig, þó mikil umferð væri hérna í kring. Það var búið að búa fólkið hér á þessu svæði mjög vel undir svona atburð, það var búið að halda fundi hér í sveitinni og fyrir fjórum árum var haldin æfing í því hvernig bæri að bregðast við gosi. Svo fólk var vel undirbúið og rýmingin gekk vel. Það er mikið öryggi fólgið í því hversu faglega og vel er staðið að málum og fylgst með framgangi gossins.“

Hvernig hafa dýrin sem eru úti við það?

„Þau hafa það fínt. Þau hafa ekki orðið vör við neitt óvenjulegt. Héðan frá Hemlu sjást aðeins gufubólstrar en engar eldglæringar. Hér hefur enginn aska fallið, þó heyrði ég í gærmorgun í mönnum sem tóku eftir smá ösku á bílum. Við erum auðvitað í viðbragðsstöðu ef aðstæður breytast og gerum ráðstafanir eftir því sem þarf.“

Heldurðu að Katla fari að gjósa í framhaldinu?

„Það veit maður auðvitað ekki. Sagan segir að líkur séu á því að svo fari. En við tökum á því ef það gerist. Það er ró yfir hestum og mönnum hér eins og er, eina raskið var rýmingin á sunnudaginn. Við fengum þó að skeppa heim á sunnudagsmorgninum til að gefa hrossunum og seinni partinn vorum við svo aftur komin heim í Hemlu.“