sunnudagur, 17. febrúar 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn eitt metár hjá Friðheimum

24. október 2011 kl. 12:57

Enn eitt metár hjá Friðheimum

Um  5000 ferðamenn fóru á „Stefnumót við Íslenska hestinn“, sögu- og gangtegundasýningu sem bændurnir í Friðheimum í Reykholti standa fyrir nokkra mánuði á ári. Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir fluttu úr höfuðborginni í Friðheima fyrir 16 árum og hafa þar byggt upp starfsemi kringum garðyrkju og hross. Fyrir þremur árum opnuðu þau starfsemi sína fyrir gestum og útbjuggu þá 15 mínútna sýningu, „Stefnumót við Íslenska hestinn“,  þar sem rakin er saga og uppruni íslenska hestsins og gangtegundir hans kynntar. Aðsókn erlendra gesta á sýninguna hefur tvöfaldast á hverju ári frá upphafi og sumarið sem leið var metár í Friðheimum.

Eiðfaxi forvitnaðist meira um stefnumótin.
 
 „Fyrir þremur árum tókum við ákvörðun um að opna Friðheima og bjóða gestum að koma í heimsókn og kynnast íslenska hestinum og íslenskri ylrækt. Við útbjuggum sögu- og gangtegundasýninguna þar sem við kynnum hestinn í 15 mínútna sýningu með tónlist undir og tali sem við eigum í dag á 14 tungumálum. Eftir sýninguna bjóðum við gestum inn í hesthús þar sem fólk kemst í snertingu við hrossin, fær hressingu og getur rætt við knapana. Sýningin er í boði frá maí til október. Einnig  bjóðum við upp á leiðsögn um garðyrkjustöðina hjá okkur þar sem við förum yfir það hvernig hægt sé að uppskera tómata alla daga ársins í okkar dimma og kalda landi,“ segir Knútur sem hafði áður unnið sem fararstjóri í hestaferðum fyrir Íshesta.
 
„Í hestaferðunum sá ég hvernig fólk verður gjörsamlega heillað af hestinum. Ég hafði gengið með þann draum lengi að geta kynnt íslenska hestinn fyrir hinum almenna ferðamanni sem komin er til Íslands til að kynnast menningu og þjóð og upplifa stórfenglega náttúru. Því eins og við vitum þá er hesturinn stór hluti af sögu þjóðarinnar og samofin menninguni sem hefur mótast af þessari stórbrotnu náttúru.  
 
Við erum svo heppin að vera staðsett í Gullna hringnum á leið til Gullfoss og Geysis þar sem mikill fjöldi ferðamanna fer framhjá. Við settum því saman stutta en hnitmiðaða sýningu með vandaðri kynningu um íslenska hestinn, markmiðið var að gestirnir myndu sjá og upplifa hestinn, komast í snertingu við hann og þegar þeir færu frá okkur þá vissu þeir þónokkuð um hann og hans séreinkenni. Allt þetta mátti ekki taka of langan tíma þannig að auðvelt væri að setja þetta inn í dagskrá hjá hópum sem eiga leið hjá. Við vorum svo lánsöm að fá Huldu Geirsdóttur frá Félagi Hrossabænda til að aðstoða okkur við kynningartextann og síðan Hinrik Ólafsson leikara til að lesa hann inn á nokkrum tungumálum sem við höfum síðan bætt við á hverju ári.“
 
Sumarið var að vonum annasamt hjá starfsmönnum og hrossum á Friðheimum, enda voru haldnar allt að 15 sýningar á viku. Til að sinna öllum þessum fjölda réðu Knútur og Helena til sín þrjá starfsmenn sem unnu eingöngu við sýningarnar yfir sumarið auk þess sem 15 ferfætlingar skiptust á að sýna listir sínar.„Starfsmennirnir taka til hross, þrífa og slá. Síðan komum við hjónin og oft aukafólk að að hverri sýningu. Á sýningunni koma alltaf fram 4-5 knapar og 5-6 hross. Við erum með um 15 hross sem við notum við sýningarnar. Það eru hvorutvegga heimaræktuð hross og aðkeypt, og einnig höfum við fengið lánuð hross. En auðvitað er skemmtilegast að vera með hross úr okkar ræktun.“
 
Hjónin eru stórhuga  og hafa í hyggju að laða enn fleiri ferðamenn í Friðheima. „Okkar markmið er að innan þriggja ára komi milli 8000 og 10.000 gestir til okkar á hestasýningu og enn fleiri inn í gróðurhús en þar getum við tekið inn gesti allt árið.“