miðvikudagur, 22. maí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Enn bætist í gæðingahópinn

9. apríl 2016 kl. 22:00

Thór-Steinn frá Kjartansstöðum, knapi Arnar Bjarki

Stóðhestaveislan.

Nú er ekki minna en sólarhringur í að Stóðhestaveislan hefjist  í Samskipahöllinni og því ekki seinna vænna að kynna til leiks nokkur snilldarhross í viðbót.
Heiðurshestur stóðhestaveislu að þessu sinni er sjálfur Aron frá Strandarhöfði. Aron hefur verið einn af vinsælustu stóðhestum landsins á síðustu árum, enda gefið glæsileg keppnishross í bunkum og verður gaman að sjá eitthvað af þeim og ekki síður kappann sjálfan.
Það verður enginn skortur á rauðskjóttum stóðhestum á veislunni, því glæsiskepnan og Álfssonurinn Herkúles frá Ragnheiðarstöðum, sem var meðal efstu 4 vetra hesta á síðasta landsmóti, ætlar að kíkja á svæðið. Einn af efnilegustu stóðhestum landsins þar á ferð.
Annar Álfssonur og ekki síðri, er Sökkull frá Dalbæ. Sökkull hlaut "aðeins" fjórar 9,5 fyrir hæfileika þegar hann var sýndur á landsmótinu 2014 og það má því fastlega búast við alvöru tilþrifum þar.
Stóðhestar eiga jú mæður og því ekki úr vegi að velta fyrir sér stóðhestamæðrum framtíðarinnar. Tvær slíkar munu sýna snilli sína á veislunni og óhætt að lofa ríflega ráðlögðum dagsskammti af gæsahúð eftir það atriði.
Kjartansstaðir eru þekkt nafn í íslenskri hrossarækt og þar er gæðingaframleiðslan enn í fullum gangi. Thór-Steinn frá Kjartanstöðum er einn af þeim gæðingum og hann mun sýna glæsilega takta í Samskipahöllinni, með margfaldan heimsmeistara í hnakknum. Sjón er sögu ríkari!
Stóðhestaveislan hefst kl. 20.00, en húsið sjálft opnar kl. 17.00 og við hvetjum gesti til að mæta tímanlega. Nóg verður af veitingum í bæði föstu og fljótandi formi, Lemon og Hamborgarabúllan verða bæði á staðnum, þannig að enginn ætti að verða svangur né þyrstur annað kvöld!