mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki tilefni til að rýma svæðið segir sóttvarnalæknir -

15. maí 2010 kl. 19:48

Mynd: bbl.is

Ekki tilefni til að rýma svæðið segir sóttvarnalæknir -

Þeir sem dvalið hafa á gossvæðinu fyrir austan hafa lýst öskufalli þar með ófögrum hætti. Fínt öskuduft dreifist þar um allt, smjúgi inn í hús og í vit fólks og valdi því óþægindum. Hefur því verið velt upp hvort að dvöl á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli sé heilsuspillandi og jafnvel hættuleg fólki.

Slíkt mat er á hendi embættis sóttvarnalæknis og Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að vel sé fylgst með aðstæðum á svæðinu. „Auðvitað er ekki sérstaklega hollt að dvelja langdvölum á svæði sem þessu en við höfum tekið þá afstöðu að þeir sem þurfa að vera á staðnum, hafa þar ákveðnu hlutverki að gegna, geti gert það ef þeir nota grímur og hlífðargleraugu. Þeir sem ekki þurfa nauðsynlega að vera úti við ef mikið og sýnilegt öskufall er ættu hins vegar að halda sig inni við. Við höfum ekki farið út í það að rýma svæðið enda höfum við ekkert í höndunum sem gefur ástæðu til þess. Við höfum sagt að ef fólk hefur möguleika að fara og hefur engu nauðsynlegu hlutverki að gegna þá er skynsamlegt að yfirgefa svæðið. Við erum hins vegar ekki hvetja til þess.“

Að sögn Haraldar kom til landsins enskur sérfræðingur í málum tengdum gosösku sem hefur verið embættinu til ráðgjafar. Hann hafi ekki talið að rýma ætti svæðið og í raun lagt upp þá hugmyndafræði sem fylgt hefur verið. Það sé mikilvægt að samfélagið á staðnum virki eins og mögulegt sé. Ef talið verður að heilsu manna sé bráð hætta búin verður gripið til rýmingar. „Við höfum hins vegar engin gögn sem benda til þess. Fari menn eftir leiðbeiningum, noti grímur og gleraugu á þeim ekki að vera hætta búin. Við erum engu að síður með vinnu í gangi við að skoða allar aðstæður og rannasaka fólk. Við höfum skoðað nokkurn hóp manna sem var við vinnu í öskufallinu og þær rannsóknir hafa ekki bent til hættu.“

Sú hætta sem mönnum er helst búin er af völdum svifryks. Ekki hefur þó verið sýnt fram á að mengun af völdum svifryks við eldgos valdi sjúkdómum. Umhverfisstofnun hefur flutt mæla á svæðið til að mæla svifryk auk þess sem settir hafa verið upp mælar til að fylgjast með gastegundum s.s. brennisteinsdíoxíði. Haraldur segir að vissulega hafi svifryksmengun á svæðinu verið viðvarandi og yfir heilsuverndarmörkum. „Það er hins vegar spurning hvernig brugðist er við. Þegar það gerist hér í höfuðborginni til að mynda þá hvetjum við fólk sem er með viðkvæm lungu til að halda sig inni við. Þarna fyrir austan á hið sama við og við leggjum líka enn og aftur áherslu á að fólk noti hlífðarbúnað.“

/ www.bbl.is /fr