miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Edda Rún og Siggi Matt söðla um: Seldu reiðskólann! -

18. júní 2010 kl. 13:10

Edda Rún og Siggi Matt söðla um: Seldu reiðskólann! -

Hjónakornin Edda Rún Ragnarsdóttir og Sigurður Vignir Matthíasson hafa selt rekstur Reiðskóla Reykjavíkur og var skrifað undir samninginn í dag. Kaupendur eru Þórdís Jensdóttir og Óskar Sæberg, auk hjónanna Baldurs Björnssonar og Jónínu Guðrúnu Heiðarsdóttur í Múlakoti.

Edda og Siggi hafa rekið reiðskólann í níu sumur og hafa vinsældir námskeiðanna þeirra aukist með hverju árinu.

Edda segir að ákvörðunin um að selja hafi verið erfið og tekið verulega á þau hjónin. Þeim hafi borist gott tilboð í reksturinn, þó að þau hafi ekki verið að auglýsa skólann til sölu.
„Við erum búin að hafa ofsalega gaman að því að vera með reiðskólann. Krakkarnir sem sækja námskeiðin eru svo skemmtileg og eins hefur starfsfólkið okkar verið frábært og alveg fyrsta flokks. Þannig að ákvörðunin var svo sannarlega erfið,“ segir Edda Rún.

Eins og allir vita hafa hjónin bæði verið áberandi á stórmótum hestamanna, bæði hér heima og á alþjóðlegum vettvangi. Svo það er einfalt að leggja saman tvo og tvo fá út að það er ekki einfalt að samræma vinnuna við reiðskólann og ferðalög og keppnir innanlands og utan, á stuttum íslenskum sumrum.

„Nei það er rétt. Við höfum viljað reka reiðskólann þannig að annað okkar sé alltaf á staðnum. Það hefur oft verið erfitt, því við viljum gjarnan bæði taka þátt í keppnum. Svo erum við líka fjölskyldufólk og viljum sinna henni af alvöru, þannig að það var komið að því að forgangsraða hlutunum og þetta varð lendingin. En ég verð að segja að ég er með sting í hjartanu, ég á eftir að sakna reiðskólakrakkanna og fjörsins í kringum þau mikið. En þau eru í góðum höndum, það er ekki spurning. Það hjálpar líka að vita það, að gott fólk taki við þeim.“

Hvað tekur þá við hjá Sigga og Eddu? Jú, þau hafa leigt jörðina Kotströnd í Ölfusi og ætla að stunda sína hestamennsku þar í bili. Þau sjá þó fyrir sér að vera með hestana á húsi í Reykjavík næsta vetur.

„Hér er yndislegt að ríða út, þó við gerum ekki mikið af því í augnablikinu sökum pestarinnar. Svo er frábært að hafa Jónu Möggu systur mína og Viðar Ingólfsson mág minn á næsta bæ, Kvíarhóli. Eins eru góðir nágrannar á hverju strái hérna í Ölfusinu, þannig að við sjáum bara skemmtilega tíma framundan, ekki spurning,“ segir Edda Rún að lokum, hress að vanda.

Eiðfaxi óskar þeim hjónum góðs gengis í „nýjum“ verkefnum í sumar.