miðvikudagur, 24. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bréf til Eiðfaxa - Tillaga til umhugsunar

28. október 2010 kl. 15:47

Bréf til Eiðfaxa - Tillaga til umhugsunar

Nú er nýlokið landsþingi LH og var það haldið af Léttismönnum á Akureyri í þetta skiptið...

Því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með þinginu en mér skilst að það hafi farið vel fram í alla staði.
Ég kynnti mér vel þær tillögur sem voru lagðar fram og fylgdist með afgreiðslu þeirra. Margar þeirra snérust um keppnismál og er það vel. Hinsvegar hefði ég viljað sjá þarna tillögu um breyttar áherslur í íþróttakeppni og þá til að byrja með varðandi Íslandsmót Barna, unglinga og Ungmenna.
Mín tillaga er sú að til að taka þátt á Íslandsmóti Barna, Unglinga og Ungmenna þurfi parið að ná lágmarkseinkunn (Hver sú einkunn á að vera er hægt að ræða). Eins verði sú breyting gerð að í forkeppni allra greina á Íslandsmótinu, muni knapar ríða prógram, og aðeins sé eitt par í brautinni.

Ég legg þetta til útaf nokkrum ástæðum
1.    Núverandi fyrirkomulag gerir það að verkum að hálfgerður firmakeppnisbragur er á forkeppninni. Þrír knapar eru í braut og þeim stýrt af þul. Og hvað þýðir það?
a.    Minna reynir á reiðmennsku knapanna og aldrei þarf að útfæra gangskiptingar sem er stór hluti af íþróttakeppni.
b.    Dómarar eiga mun erfiðara með að verðlauna eða refsa fyrir reiðmennsku og að sama skapi að sjá þá feila sem að knapar gera í brautinni.
2.    Með því að breyta þessu svona þá erum við að gera Íslandsmótið “stærra” en  önnur íþróttamót sem haldin eru um landið. Það þarf að ná í ákveðna einkun til að fá keppnisrétt á Íslandsmótinu og því meiri metnaður að fá tækifæri til að keppa þar.
3.    Þessi breyting gerir dómurum kleift að verðlauna fyrir góða reiðmennsku og eykur því líkurnar á því að þeir sem í úrslitin komast séu bestu reiðmennirnir og best útfærðu sýningarnar,  en það er einmitt það sem við viljum sjá á íþróttamótum.
4.    Núverandi fyrirkomulag er að valda því að stærsti hluti okkar ungu knapa, hefur enga æfingu í útfærslu á íþróttasýningum. Norðlendingar hafa reyndar reynt að halda í það fyrirkomulag að einn sé í braut og er það vel. Við erum hinsvegar að upplifa það að þegar þessir knapar okkar fara svo erlendis að keppa fyrir Íslands hönd, þá skortir þeim þessa reynslu og erum því ósjálfrátt nokkrum skrefum á eftir erlendum jafnöldrum sínum.

Nú fer að styttast í það að hestamenn fari að taka á hús og undirbúa keppnishrossin fyrir komandi átök. Það er spennandi keppnisár framundan með íslandsmót, Landsmót og Heimsmeistaramót svo að það verður í nógu að snúast. Ég vil hvetja mótanefndir félaga að prufa þetta fyrirkomulag því núverandi firmakeppnisfyrirkomulag á íþróttamótum er ekki að gera neitt gott fyrir greinina ... og engan veginn að hjálpa unga fólkinu okkar þegar til lengri tíma er litið.

Ólafur Árnason