mánudagur, 22. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Bið á nýjum útreikningi kynbótamats

4. janúar 2013 kl. 14:52

Rökkvi frá Hárlaugsstöðum var sýndur sem klárhestur í kynbótadómi og keppti í tölti og B flokki. Þó er talið víst að hann sé hreinn alhliðahestur að arfgerð (AA) undan tveimur vökrum alhliða hrossum. Knapi er Þorvaldur Árni Þorvaldsson.

Ekki eru allir kynbótafræðingar sammála um ótvírætt gildi upplýsinga fyrir hrossaræktina í kjölfar uppgötvunar skeiðgensins.

Nýtt kynbótamat verður ekki reiknað fyrr en í haust og engar breytingar verða gerðar á stigunarkvarða og kynbótadómum á þessu ári. Þrátt fyrir nokkuð afdráttarlausa afstöðu dr. Þorvaldar Árnasonar kynbótafræðings á ráðstefnu um skeiðgenið á Hvanneyri í haust.

Þorvaldur sagði að í raun væri ekki eftir neinu að bíða. Uppgötvun skeiðgensins leiddi í ljós að kynbótamatið hefði fram til þessa verið rangt reiknað, vegna þess að klárhross með tölti hefðu fengið núll fyrir eiginleika sem þau ekki sýndu. Sú reikniaðferð hafi verið röng og reikna bæri kynbótamatið upp á nýtt á öðrum forsendum. Einnig kæmi til greina að sýna klárhross (arfgerð AC) í sérstökum flokki á kynbótasýningum, þar sem arfgerð þeirra er önnur en arfhreinna alhliðahrossa.

Á desemberfundi fagráðs í hrossarækt voru kynbótafræðingarnir dr. Ágúst Sigurðsson og dr. Elsa Albertsdóttir, fengnir til skrafs og ráðagerða. Niðurstaða fundarins var sú að rétt væri að fara varlega í breytingar. Skoða þurfi málið betur í heild og tryggja að allar breytur séu teknar með í reikninginn og að þær séu traustar.

Samkvæmt heimildum Hestablaðsins eru ekki allir kynbótafræðingar sammála um að málið sé jafn einfalt og Þorvaldur lýsti á Hvanneyrarráðstefnunni. Rannsaka þurfi betur arfgerð (DNA) og dóma margra kynbótahrossa áður en farið verði út í breytingar og síðar kunni að koma í ljós að séu ekki byggðar á nægilega traustum grunni.