sunnudagur, 21. apríl 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Askur frá Tunguhálsi til Jótlands

Jens Einarsson
2. desember 2009 kl. 11:02

Agnar Snorri safnar stóðhestum

Agnar Snorri Stefánsson, sem búsettur er í Danmörku, hefur keypt stóðhestinn Ask frá Tunguhálsi II. Hesturinn er kominn á járn og lemur nú grundir á Jótlandi, á búgarði Agnars Sorra, Stald Gavnholt.

Askur vakti athygli á FM2009 á Kaldármelum fyrir rými á öllum gangi. Þar var hann sýndur í 5 vetra flokki stóðhesta og í ræktunarbússýningu Tunguhálsbúsins. Hann fékk 8,27 í aðaleinkunn, þar af 8,45 fyrir kosti. Tölt, brokk og skeið upp á 8,5 og vilji upp á 9,0. Askur er undan nafna sínum Aski frá Kanastöðum og Pólstjörnu frá Tunguhálsi, Safírsdóttur frá Viðvík. Í ættinni eru margir eldri höfðingjar: Hervar frá Sauðárkróki, Ófeigur frá Hvanneyri, Hrafn frá Holtsmúla, Rauður 618 frá Kolkuósi, Fáfnir frá Fagranesi, og gæðingurinn Gormur frá Húsafelli.

Agnar Snorri rekur þjálfunarstöð fyrir kynbótahross á Stald Gavnholt og á nokkra þekkta stóðhesta. Þar á meðal Fálka frá Sauðárkróki, Róm frá Búðardal og Gauk frá Kílhrauni, sem allir hækkuðu umtalsvert í dómi eftir þjálfun og sýningu hjá Agnari. Spennandi verður að fylgjast með Aski í vor, því ekki er ólíklegt að hann salli á sig nokkrum níum í hæfileikadómi ef Agnari tekst jafnvel upp og með hina þrjá.