mánudagur, 18. júní 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allt í plati á Meistaramóti

5. september 2011 kl. 12:45

Smári Adolfsson var með allt löglegt á Meistaramóti í fyrra, en hann keppti í áhugamannaflokki á þessum fallega hesti.

Ekki farið nákvæmlega eftir FIPO reglum

Meistaramót Andvara hefur um árabil verið eitt vinsælasta hestamót ársins, bæði hjá keppnisfólki og áhorfendum. Þar á frjálslegt form stærstan þátt. Gæðingakeppnin fer fram á beinni braut og reglur eru sveigjanlegar. Beisla- og fótabúnaður er frjáls, ríða má með písk. Og ekki er verið að fetta fingur út í þótt knapar taki nokkra viðsnúninga á brautinni til að vinda ofan af "viljugum" gæðingum.

Það vekur athygli að nokkrum hestum er riðið við "fullbúinn" reiðmúl, það er að segja krossmúl með neðri skáreim, en hún var sett á bannlista á þessu ári í FIPO reglunum. Til að mynda mátti ekki ríða með hana í gæðingakeppni á LM2011 og öðrum mótum þar sem farið er eftir reglum FIPO. Svo virðist sem sumir gæðingar láti betur að stjórn með skáreimina, nema það sé vegna þess að þeir róist með haustinu!

Strangt til tekið er árangur á Meistaramóti Andvara ekki marktækur. Klárlega ekki í gæðingakeppni og tölti. Líka má spyrja hvort hægt sé að taka hluta keppninnar sem góða og gilda, eins og skeiðkappreiðar, þegar augljósir "formgallar" eru á mótinu í heild. En engin spurning er hins vegar um að Meistaramótið fellur í kramið, eitthvað sem taka mætti til skoðunar hjá þeim sem vilja halda skemmtileg hestamót.