föstudagur, 19. október 2018
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Áhrif holdastigs á frammistöð

Óðinn Örn Jóhannsson
23. nóvember 2017 kl. 14:47

Kynbótahryssur

Lokaverkefni Einars Ásgeirssonar.

Offita hrossa er stórt vandamál hjá fullorðnum hrossum. Hún er tengd háu holdastigi og hefur í för með sér ýmiss heilsufarsvandamál, svo sem efnaskiptavandamál, hófsperru og jafnvel hamlaða hreyfigetu. Íslenski hesturinn er talinn vera “easy keeper”, með lágar orkuþarfir til viðhalds og hefur því tilhneigingu til offituvandamála. Því er þörfin brýn að rannsaka hvaða holdastig og fóðrunarástand hentar til að hámarka frammistöðu, heilbrigði og langlífi íslenska gæðingsins.

Markmið þessa verkefnis var að rannsaka áhrif mismunandi holdastigs á frammistöðu við þjálfun, endurheimt og hreyfifræðilegt jafnvægi í íslenskum hestum. 

Tilraun var framkvæmd á Hólum í Hjaltadal í samstarfi við Landbúnaðarháskólann í Svíþjóð, SLU,  vorið 2016. Tilraunin var á skipti-formi, þar sem níu geldingar í tveimur hópum voru fóðruð á tvo mismuandi vegu. Annars vegar há-orku fóðrun (64 MJ ME/dag), sem svipar til ca. 10 kg/dag af orku- og próteinríku heyi, og lág-orku fóðrun hins vegar (32 MJ ME/dag) sem jafngildir 5 kg/dag af sama heyi, til að ná fram breytileika í holdastigi hópanna.

Þannig voru hrossin voru fóðruð á báða vegu og þjálfuð í 28 dag í senn samhliða einni viku af gagnasöfnun. Fyrir gagnasöfnun gagna voru hrossin sett í tvenns konar frammistöðupróf, á hlaupabretti annars vegar og í eftirlíktri kynbótasýningu hins vegar. Einnig var hreyfifræðilegt jafnvægi mælt með stafrænum hugbúnaði. Blóðsýni voru tekin og einnig voru öndunartíðni og líkamshiti í endaþarmi mæld.

 

Helstu niðurstöður voru:

Hross á há-orku fóðrun voru þyngri og í hærra holdastigi samanborið við hross á lág-orku fóðrun. Meðal þyngdarmunur milli fóðrunarástands var 17 kg. Hafa ber í huga að hrossin voru í ríflegum holdum á meðan tilraun stóð, sem svipar til holdastigs 3,0-4,0 á íslenska holdstigunarskalanum.

Í kynbótadómi hlutu hross í hærra holdastigi marktækt lægri einkunnir fyrir stökk, fegurð í reið og í aðaleinkunn hæfileika í kynbótadómi samanborið við hross í lægra holdastigi. 

Hrossin í lægra holdastigi höfðu hærri mjólkursýru í blóði eftir kynbótasýningu, en höfðu hærri meðalhraða og hámarkshraða í sýningunni. Þau gátu því unnið undir meira álagi en hross í hærra holdastigi. 

Ennfremur höfðu hross á lág-orku fóðrun hærra hlutfall rauðra blóðkorna í blóði. 

Í báðum hlaupaprófum var mynstur endurheimtar breytt milli mismunandi meðferða. Hestar í hærra holdastigi höfðu hærri öndunartíðni, en hærri líkamshita í kynbótasýningu, vegna aukins álags. Þetta bendir til þess að hross í hærra holdastigi gætu verið lengur að ná fullri endurheimt eftir þjálfun.

Jafnframt höfðu hross í hærra holdastigi minna jafnvægi á hreyfingu, mælda í framfótum. Jafnvægi hrossa á gangtegundum er frumforsenda þess að ná árangri í kynbótasýningum og keppni, svo niðurstöðurnar koma skemmtilega á óvart hvað þetta varðar.

Þegar niðurstöður eru dregnar saman er það ályktað að umfram líkamsþyngd og holdastig skerðir frammistöðu keppnis- og kynbótahrossa, breytir endurheimtarmynstri og minnkar jafnvægi í hreyfingum og þar sem getu til að framvæma vinnu undir meira álagi, þ.e. skerðir möguleika hestsins að sýna sanna reiðhestshæfileika sína.